• Home
  • Learn to play
  • Ideas & Secrets
  • Podcast/TV
  • Blog
  • Contact

Jon Hilmar Karason

Það er skrímsli undir rúminu þínu

Fyrirlestur um hvað gerist þegar þú gerir

Veturinn sem ég ákvað að taka sénsinn á atvinnuleysi og þurfti að sjá um að hafa eitthvað að gera alveg sjálfur ákvað ég að búa til fyrirlestur. Ég hef haldið fyrirlesturinn fyrir alla grunnskóla á Austurlandi auk skóla á Vestfjörðum og Vesturlandi.

Fyrirlesturinn er skemmtileg blanda af tónlist og tali þar sem ég fjalla um hræðsluna sem tekur stundum völdin hjá okkur og hversu slæmt það er að lofa henni að ráða för ef við viljum framkvæma það sem okkur langar til að gera. Hvað gerir þú ef það er skrímsli undir rúminu þínu? Breiðir þú upp fyrir haus og lokar augunum eða safnar þú kjarki til að kíkja?

Ég nota dæmi úr mínu lífi og segi frá því sem ég hef þurft að kljást við sem tónlistarmaður og kennari og hvernig ég þurfti að læra að trúa ekki endilega því sem væri satt heldur því sem væri hjálplegt. Ég hef gítarana með mér og tengi tónlistina sem ég spila við fyrirlesturinn og segi til dæmis frá því þegar ég ákvað að byrja að syngja sem ég þorði ekki að gera fyrr en ég var 35 ára gamall. Hversu marga langar ekkert meira en að syngja en þora því ekki og láta það stjórna sér? Þetta er hvetjandi fyrirlestur um hluti sem ég er alltaf að æfa mig í og hluti sem ég hef lært sem hafa haft mikil áhrif á mitt líf.

Fyrirlestur um netkennslu

Er þetta eitthvað fyrir þig?

Hver eru tækifærin fyrir þig sem tónlistarkennara, skólann þinn og nemendur varðandi netkennslu? Er þetta í alvöru að virka og getur þú kennt á netinu?

Á fyrirlestri um netkennslu fer ég yfir alla þá möguleika sem eru fyrir hendi varðandi netkennslu og fer yfir hvernig ég hef hagað minni kennslu síðastliðin ár en ég hef kennt í gegnum netið síðan 2016. Þessi fyrirlestur er fyrir þá sem vilja horfa til framtíðar og geta aðlagað sig að breyttum heimi því tækniþróunin er svo hröð og heimur netkennslunnar er sífellt að stækka. Ég velti því einnig fyrir mér hvort netið komi til með að verða ógn við hefðbundna tónlistarkennslu og hvort það sé í raun svo slæmt að geta verið hvar sem er í heiminum en að kenna nemanda á Raufarhöfn.

 

Skoðaðu fyrirlesturinn hér